Pier Paolo Pasolini Pages in the World Iceland |
.
Pier Paolo Pasolini (1922-1975) fæddist í Bologna. Hann hóf að yrkja ljóð sjö ára gamall og var nítján ára þegar ljóð hans voru fyrst gefin út. Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni gekk hann til liðs við kommúnista, en var rekinn úr flokknum tveimur árum síðar vegna samkynhneigðar, sem hann viðurkenndi opinberlega við mörg tækifæri. Þrátt fyrir það hélt hann alla tíð tryggð við heimsmynd kommúnismans. Fyrsta kvikmynd hans, Accatone (1961), sem var byggð á frumsaminni skáldsögu, fjallaði á kraftmikinn hátt um líf melludólgs í fátækrahverfum Rómaborgar og vakti mikla athygli og umtal. Pasolini var handtekinn fyrir guðlast árið 1962 vegna framlags síns til kvikmyndarinnar Ro.Go.Pa.G, samstarfsverkefnis fjögurra leikstjóra, og hlaut skilorðsbundinn dóm. Það hefði því mátt búast við því að næsta mynd hans, Il vangelo secondo Matteo (Matteusarguðspjall, 1964), sem fjallaði um ævi Jesú á afar raunsæjan og íburðarlausan hátt, myndi valda svipuðu moldviðri. Raunin varð þó sú að henni var fagnað innilega sem einni af einlægustu lýsingum á Kristi sem sést hefði á hvíta tjaldinu. Pasolini sendi síðan til skiptis frá sér afar persónulegar og oft á tíðum erótískar kvikmyndaútgáfur af klassískum bókmenntaverkum og kvikmyndir sem lýstu umdeildum skoðunum hans á marxisma, trúleysi, fasisma og samkynhneigð. Pasolini var myrtur árið 1975 við kringumstæður sem enn eru ekki að fullu upplýstar.
„Ef þú þykist vita að ég sé trúleysingi, þá þekkirðu mig betur en ég geri sjálfur. Það má vera að ég sé vantrúaður, en ég er trúleysingi sem ber í brjósti löngun til að trúa.“ * * *
* * * "Pagine corsare" links in English:
|
. |
![]()
|
|